Félagsmiðstöðin Gryfjan

Félagsmiðstöðin Gryfjan er opin einu sinni í viku fyrir nemendur í 8.-10. bekk og nokkrum sinnum á önn fyrir 5.-7. bekk annars vegar og 1.-4. bekk hins vegar. Unglingarnir skipuleggja sína dagskrá að mestu sjálfir og sjá þeir einnig um fjáraflanir fyrir stærri viðburði eins og Samfés og fleira.

Félagsmiðstöð gengur út á heilbrigðar tómstundir, fræðslu og samskipti. Þar er markmiðið að stuðla að auknum félagslegum þroska barna og unglinga, skýrari sjálfsmynd og forvörnum varðandi andlega- og líkamlega heilsu og skaðlega hegðun. Leitast er við að koma til móts við ólíkar þarfir einstaklinga. Virðing, umhyggja, víðsýni, samkennd, jafnrétti, vinátta, frumleiki og frumkvæði eru helstu leiðarljósin.

Forstöðumaður er í nánu samstarfi við nemendaráð og þau börn/unglinga sem nýta félagsmiðstöðina. Þessir aðilar hafa samráð við skipulagningu starfseminnar og deila með sér verkum og ábyrgð varðandi það sem í boði er í félagsmiðstöðinni. Þetta er gert til að efla áhuga, frumkvæði og þá tilfinningu að þetta sé þeirra félagsmiðstöð sem byggi á starfi þeirra sjálfra. Forstöðumaður ber þó alla ábyrgð á starfseminni.

Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar nær yfir alla árganga í Grenivíkurskóla. Yngsta stig fær að koma í félagsmiðstöð í tvö til fjögur skipti á vetri. Starfsemi og fjölbreytni eykst eftir því sem nemendurnir verða eldri. Fyrir 5. – 7. bekk er félagsmiðstöð í tvö til fjögur skipti á önn. 8. – 10. bekkur hittist oftar í félagsmiðstöð. Starfsemin samanstendur af hópastarfi, frjálsum tómstundum, böllum, ferðalögum o.fl.  Félagsmiðstöðinni er úthlutað vissri fjárhæð fyrir hvert starfsár sem nota skal til að greiða kostnað.

Félagsmiðstöðin starfar í nánu samstarfi við Grenivíkurskóla. Félagsmiðstöð nýtir húsnæði og tæki skólans í samráði við húsvörð og skólastjóra. Samvinna er við starfsmenn skólans um tiltekin verkefni og/eða einstakar uppákomur.