Hugarfrelsi

Hugarfrelsi

Haustið 2022 hóf Grenivíkurskóli innleiðingu á Hugarfrelsi.

Innleiðingin er í samstarfi við forsvarskonur Hugarfrelsis, en þær hafa sérhæft sig í aðferðum til að efla börn og unglinga. Aðferðirnar draga úr kvíða og streitu, efla sjálfstraust og jákvæðni sem skiptir miklu máli upp á vellíðan og sjálfsmynd nemenda.

Með því að kenna börnum aðferðir Hugarfrelsis; öndun, jóga, slökun, hugleiðslu og sjálfsstyrkingu, öðlast þau fremur færni til að hafa betri stjórn á líðan sinni og viðbrögðum. Einbeiting þeirra eflist, sjálfsmyndin batnar og þau finna smám saman hugarró og innri frið.

Kennurum í hverju teymi er uppálagt að nota aðferðirnar reglulega hvort sem kosið er að gera þær daglega, tvisvar í viku eða sjaldnar. Reglan er það sem skapar mynstrið og vanann. Með endurtekningunni læra börnin betur og betur að tileinka sér þá tækni sem kennd er. Þau geta í kjölfarið yfirfært þekkingu sína og færni yfir á annað í sínu daglega lífi.

Samstarf Grenivíkurskóla við Hugarfrelsi gengur út á að innleiða aðferðir Hugarfrelsis inn í hefðbundið skólastarf. Í ágúst 2022 sótti allt starfsfólk námskeið þar sem áhersla var lögð á öndun, jóga, slökun og hugleiðslu og hvernig nýta má þessa þætti í daglegu starfi með nemendum. Markviss öndun, slökun og hugleiðsla eru aðferðir sem hafa reynst mjög vel til þess að draga úr streitu, bæta svefn og auka vellíðan. Því er mikilvægt að kenna börnum að nota þessar einföldu aðferðir sem gagnast þeim alla ævi. 

Seinni hluti innleiðingarinnar fór svo fram í upphafi árs 2023 þar sem áhersla var lögð á sjálfsstyrkingu, jákvæða hugsun, tilfinningagreind, styrkleika o.fl. Öll viljum við að börnin okkar séu hamingjusöm og í góðu jafnvægi og því erum við afskaplega ánægð með samstarf okkar við Hugarfrelsi. Við teljum innleiðinguna hafa farið vel af stað og hlökkum til framhaldsins en markmið Grenivíkurskóla er að útskrifa börn sem hafa lært einfaldar aðferðir til að auka sjálfstjórn, efla sjálfstraust og líða vel í þeim krefjandi verkefnum sem lífið býður upp á.