Teymiskennsla

Haustið 2021 hóf Grenivíkurskóli að innleiða teymiskennslu í skólanum. Ingvar Sigurgeirsson, kennslufræðingur, hefur verið skólanum til ráðgjafar og stuðnings í þessari vinnu og verður áfram. Í teymiskennslu mynda nokkrir kennarar teymi utan um hóp nemenda, bera sameiginlega ábyrgð á þeim hópi og kenna að einhverju eða öllu leyti saman, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Kostir teymiskennslu og teymisvinnu er margir og ótvíræðir og reynsla þeirra skóla sem hafa farið þessa leið nær undantekningalaust jákvæð. Samvinna kennara hefur í för með sér fjölbreyttari nálgun á nám og kennslu, sameiginleg ábyrgð á nemendahópi er styrkur fyrir nemendur jafnt sem kennara, og sá faglegi stuðningur og það faglega samtal sem verður til í kennarateymunum er afar mikilvægt. Teymiskennsla og teymisvinna eykur einnig sveigjanleika í námi, styður við einstaklingsmiðun og getur skapað vinnuhagræðingu þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín.

Á fyrsta ári innleiðingarinnar hafa kostir teymiskennslu víða sýnt sig. Faglegt samstarf hefur aukist, auðveldara er að leysa forföll, og þar sem ábyrgðinni er dreift milli kennara verður forfallakennsla oft markvissari en áður. Heilt yfir hafa nemendur jafnt sem kennarar lýst ánægju sinni með breytingarnar. Þó höfum við líka rekist á hindranir. Sums staðar hefur reynst erfitt að finna nægan tíma til sameiginlegs undirbúnings kennara, hópaskiptingar hafa reynst snúnar og þá hafa veikindi og forföll verið með mesta móti þennan fyrsta vetur innleiðingarinnar, t.d. vegna Covid-19 og flensufaraldurs, sem hafði talsverð áhrif í einhverjum teymum.

Við ætlum að halda áfram að þróa teymiskennsluna við skólann og leggja þar áherslu á fjölbreytta og skapandi kennsluhætti, samþættingu námsgreina og verkefnamiðað nám. Ingvar Sigurgeirsson mun áfram verða skólanum til ráðgjafar og stuðnings varðandi innleiðinguna.