Byrjendalæsi

Íslenskukennarar á yngsta stigi ásamt fagstjóra stuðningskennslu hófu haustið 2011 að innleiða Byrjendalæsi í Grenivíkurskóla. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Valsárskóla og Háskólann á Akureyri.

Um Byrjendalæsi:

Byrjendalæsi er kennsluaðferð ætluð nemendum í 1. og 2. bekk grunnskólans. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri.

Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Gengið er út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að mynda merkingarbærar tengingar við eigið líf.

Því er margs konar gæðatexti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann nýttur sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning og ritun af ýmsu tagi.

Grunnstoðir Byrjendalæsis:

  • Lestur, ritun, tal og hlustun eru samofnir þættir og unnið er með þá á heildstæðan hátt.
  • Merkingarbær viðfangsefni sem byggja á gæðatexta.
  • Markvissa samvinna og samskipti nemenda í námi.
  • Einstaklingsmiðun í kennslu, stigskiptur stuðningur við nám.
  • Markviss kennsla aðferða sem styðja við lesskilning og fjölbreytta ritun.