Grunnþættir menntunar

Grunnþættir menntunar snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega.  Nemendur læri að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir birta framtíðarsýn ásamt getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa. Með grunnþáttunum er lögð áhersla á að rækta þá þekkingu, leikni, hæfni og viðhorf sem nýtast nemendum til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í samfélagi sem byggir á jafnrétti og lýðræði.

Í Grenivíkurskóla leggjum við áherslu á það að skipuleggja nám og kennslu með hliðsjón af grunnþáttum menntunar. Hér má sjá þær áherslur sem skólinn hefur í sinni nálgun á grunnþætti menntunar.

Læsi: Í skólanum er unnið með læsi í víðum skilningi á fjölbreyttan hátt. Skólinn leggur sig fram um að skapa lestrarmenningu þar sem áhugi og ánægja er í fyrirrúmi. Þetta er t.d. gert með því að gefa nemendum tíma fyrir yndislestur ásamt því að blása reglulega til lestrarátaka í skólanum. Fjölbreyttum kennsluháttum er beitt, sem og námsmati þar sem lögð er áhersla á að unnið sé með raunveruleg, merkingarbær verkefni. Læsi er lykillinn að öllu námi og því mikilvægt að nemendur á öllum aldri hljóti markvissa og fjölbreytta lestrarkennslu.

Á yngsta stigi er unnið með Byrjendalæsi sem er samvirk aðferð þar sem áhersla er lögð á orðaforða, lestrartækni, lesskilning og ritun á skapandi hátt. Á miðstigi og unglingastigi er áfram unnið með lestrartækni, leshraða og lesskilning og lögð áhersla á að nemendur séu duglegir að lesa bækur. Ávallt er leitað leiða til að efla lestraráhuga. 7. bekkur tekur þátt í Stóru upplestrarkeppninni og 4. bekkur tekur þátt í Litlu upplestrarkeppninni.

Lögð er rík áhersla á gott samstarf við heimilin þegar kemur að lestri og þá sér í lagi heimalestri á yngsta stigi. Lestrarstefna Grenivíkurskóla með áætlun um skimunarpróf og viðbrögð við niðurstöðum þeirra, er birt á heimasíðu skólans.

Sjálfbærni:  Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags.  Útiskólinn og Grænfánaverkefnið, flokkun úrgangs, moltugerð og umhverfisfræðsla eru samtvinnuð skólastarfinu. Þá á skólinn í nánu samstarfi við leikskólann Krummafót, dvalarheimilið Grenilund og hin ýmsu fyrirtæki og stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Heilbrigði og velferð: Heilbrigði og velferð byggir bæði á líkamlegum þáttum og andlegum.  Hreyfing, næring og líðan eru þeir þættir sem Grenivíkurskóli leggur mikla áherslu á og er starfsfólk allt samtaka í þeim efnum.

Hreyfing nemenda er í hávegum höfð.  Allir nemendur fara í 4 íþróttatíma í hverri viku.  Nemendur á yngsta- og miðstigi eru í útiskóla tvær kennslustundir í viku og í frjálsu vali á unglingastigi er boðið upp á hreyfival. Nemendur á mið- og unglingastigi fara út í 15 mínútur í  frímínútum tvisvar í viku og nemendur á yngsta stigi fara út alla daga.  Þá hafa nemendur aðgang að íþróttasal í hádegishléinu. Skólinn er í samvinnu við Íþróttafélagið Magna um skipulag fótboltaæfinga fyrir nemendur.

Næring er mikilvægur þáttur í að viðhalda góðri heilsu.  Allir nemendur eru í mötuneyti og fá heitan mat í hádeginu fjóra daga vikunnar. Matseðill er saminn eftir viðmiðum manneldisráðs. Nemendur fá leiðsögn og kennslu um hollan mat og hvernig á að matreiða hann þegar þeir eru í heimilisfræði. Nægur tími er til að borða.  Kennarar borða með nemendum og aðstoða þá við að tileinka sér góða borðsiði. Dregið er á borð þvert á aldur. Nemendur fá ávexti í fyrstu frímínútum dagsins og einnig er boðið upp á mjólk í hádeginu með matnum.  Á föstudögum koma nemendur með nesti að heiman, fá mjólk í skólanum og eru þeir hvattir til að koma með hollt og gott nesti.

Grenivíkurskóli hefur innleitt Olweusaráætlunina og gripið er strax inn í ef minnsti grunur er um einelti eða vanlíðan nemenda. Öllum á að geta liðið vel í skólanum. Unnið er markvisst að því að skapa jákvæðan skólabrag.  Í gæðahring er rætt um jákvæð samskipti og hvert tækifæri er notað til að ræða um virðingu.  Skólaliðar taka á móti nemendum að morgni, áhersla er lögð á virðingu í samskiptum milli allra aðila í skólasamfélaginu, jákvætt viðmót, hrós og bros.  Einu sinni í viku hittast allir nemendur í samveru og þar eru ýmis mál tekin fyrir. Nokkrir uppbrotsdagar eru yfir skólaárið og er þá nemendum skipt þvert á nemendahópana til að þeir læri að umgangast hver annan og bera virðingu hver fyrir öðrum.

Nemendur taka virkan þátt í tónleikum, uppsetningu leiksýninga, upplestrarkeppni og ýmsu öðru sem er á dagskrá hér í Grenivíkurskóla. Gott og öflugt samstarf er við foreldra og þeir eru alltaf velkomnir í skólann. Öflugt foreldrasamstarf eykur vellíðan og öryggi nemenda. Skólahjúkrunarfræðingur er í skólanum einn dag í viku.  Hjúkrunarfræðingurinn sinnir margvíslegri fræðslu, t.d. um hvíld, tannhirðu, næringu og kynfræðslu.

Við teljum mikilvægt að viðhalda góðum starfsanda innan skólans, bæði meðal nemenda og starfsfólks.

Lýðræði og mannréttindi:  Mikið er fjallað um lýðræði í ýmsu kennsluefni þó lýðræðið sé ekki aðalumfjöllunarefnið. Kosningar eru virkt form lýðræðis í skólastarfinu, t.d. kjósa nemendur í nemendaráð og eiga setu í skólaráði. Nemendur senda erindi til sveitarstjórnar t.d. í tengslum við Grænfánaverkefnið. 

Mikið er fjallað um mannréttindi, rétt hvers og eins til að vera hann sjálfur.  Sífellt er verið að vinna með framkomu og samskipti í minni og stærri hópum. 

Jafnrétti:  Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta, t.d.  aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúar, tungumála, ætternis og þjóðernis.  Jafnrétti ber oft á góma í umræðum tengdum námsefninu og það er einnig tekið fyrir í gæðahring og á samveru.

Sköpun:  Mikil áhersla er lögð á að nemendur efli sköpunarkraft sinn, t.d. í verkefnavinnu.  Nemendur hafa val um verkefni í list- og verkgreinum og þar eru þeim gefnar frjálsar hendur innan ákveðins ramma.  Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og mikið lagt upp úr sjálfstæði nemenda þar sem sköpunargleðin getur notið sín.