Skólinn okkar

Skólinn okkar

Grenivíkurskóli flutti í núverandi húsnæði 13. okt. 1981. Áður var skólinn í Gamla skólanum sem byggður var 1925 og var löngu orðinn allt of lítill. 

Skólahúsið er 620m² að flatarmáli á tveimur hæðum. Sundlaug er við skólann, byggð 1990. Hún er 8x16,67 m, ekki yfirbyggð.  Sund er kennt einu sinni í viku. Íþróttahúsið var byggt 1994. Salurinn er 18x28 m með áhorfendapöllum til annarrar hliðar. Nýbygging við íþróttamiðstöð var vígð haustið 2005.

Nemendur Grenivíkurskóla eru 50 í vetur. Þeir voru flestir rúmlega 90 um miðjan 9. áratuginn en fækkaði á fimmtán árum alveg niður í 43. Nemendafjöldi hefur verið í kringum 50 undanfarin ár. 

Skólinn er að innleiða teymiskennslu og í grunninn til eru þrír námshópar í vetur sem teymi kennara bera sameiginlega ábyrgð á. Yngsta stig (1.-4. bekkur) er saman í námshóp, miðstig (5.-7. bekkur) er saman í námshóp og unglingastig (8.-10. bekkur) er saman í námshóp. Teymiskennslan býður upp á fjölbreytta möguleika varðandi hópaskiptingu og skipulag og því er misjafnt hvort allir nemendur séu saman í kennslustundum eða ekki. Skólinn hefst kl. 8:20 á morgnana. Hluti nemendahópsins, þeir sem búa í Höfðahverfi, er í skólaakstri. Í vetur eru 7 nemendur í daglegum akstri.

Einkunnarorð skólans eru: hugur, hönd og heimabyggð„Hugur“ vísar til þess andlega afls sem býr í nemendum og starfsfólki, getuna til að hugsa gagnrýnið og skilja heiminn í kringum okkur. „Hönd“ stendur fyrir framkvæmdir, það að vinna með þá þekkingu sem aflað hefur verið og einnig það nám sem fram fer með því að skapa og finna lausnir í verklegum greinum. „Heimabyggð“ er okkur mikilvæg, þekking á sögu og umhverfi, þátttaka í félagsstarfi og atvinnulífinu. Nemendur læra að þekkja sína heimabyggð og skilja hvernig nærsamfélagið virkar.

Skólaheit Grenivíkurskóla er:  ,,Ég kem í skólann til að læra og gera mitt besta”.

Í skólaheitinu felst að skólinn leitast við að haga skólastarfinu í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Áhersla er lögð á að nýta námstímann vel og að allir geti nýtt hæfileika sína til fulls.