Skólaslit

Í gær, fimmtudaginn 1. júní var Grenivíkurskóla slitið með pompi og prakt. Anna Kristín Þórðardóttir útskriftarnemandi, hóf athöfnina á tónlistaratriði en hún spilaði rólegan vals á píanó. Ásta hélt því næst smá ræðu en hún talaði m.a. um hverstu sterkar fyrirmyndir við fullorðna fólkið erum hinum yngri. Ef við förum ekki eftir þeim reglum sem samfélagið setur okkur að þá læra börnin að það sé í lagi að fara ekki eftir þessum sömu reglum. Þar á meðal umferðarreglum. Ef við trössum að spenna börnin okkar í belti og leyfum þeim að valsa lausum um í bílnum þegar við skreppum í búðina eða á stuttan rúnt í þorpinu, að þá læra þau að það sé bara allt í lagi að spenna sig ekki í beltin í bílnum þegar þau verða sjálf fullorðin. Spennum börnin okkar í belti og höfum öryggið í fyrirrúmi og verum börnunum okkar góðar fyrirmyndir.

Þá fór hún um víðan völl og ræddi ýmis verkefni sem hafa farið fram í skólanum í vetur, keppnir við aðra skóla þar sem Grenivíkurskóla sigraði m.a. Dalvíkurskóla í skák og svo að sjálfsögðu forsetaheimsóknina. Að lokum minnti hún foreldra á að hjálpa börnunum sínum með lestur yfir sumarið því það er svo mikilvægt að þurfa ekki að taka fyrstu 3 mánuði skólaársins í að ná upp þeirri færni sem þau hafa náð vorið áður. Það þarf að halda færninni uppi yfir sumarið svo þau geti byrjað næsta haust á því að bæta sig en ekki ná upp þeirri færni sem þau voru þegar búin að ná.

Eftir ræðuna hennar Ástu spilaði Björn Rúnar Þórðarson útskriftarnemandi lag á gítar áður en Ásta gat byrjað að útskrifa nemendur. En áður en hún útskrifaði nemendur byrjaði hún á því að útskrifa þá foreldra sem eru búnir að vera með börn í skólanum til fjölda ára og eru nú hætt því. Það voru Janette Höskuldsson og Sigurbjörn Höskuldsson, Hólmfríður Björnsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, Sigrún Björnsdóttir og Þórður Jakobsson og síðast en ekki síst voru það Sesselja Bjarnadóttir og Þórður Ólafsson. Sesselja og Þórður eru búin að vera með barn í grunnskóla í 32 ár eða frá því árið 1985 og þar af 31 ár í Grenivíkurskóla. Þau jafna þar með met Björns Ingólfssonar og Ólínu Helgu Friðbjörnsdóttur sem voru einnig með börn samfleytt í 32 ár í grunnskóla. Þessir foreldrar fengu viðurkenngarplagg og rós.

Þá gat hún byrjað að útskrifa nemendur og hélt stutta tölu um hversu flottir þessir krakkar eru. Hún íhugaði mjög að fella þau bara öll til þess að við myndum ekki missa þau frá okkur og fá að vera með þau í eitt ár í viðbót. Svo skemmtileg eru þau. En svo sá hún að sér í tæka tíð og sá að það væri eigingirni. Við verðum að leyfa öðrum að njóta þess að fá að kenna þeim. Þeir nemendur sem útskrifuðust þetta árið voru Anna Kristín Þórðardóttir, Björn Rúnar Þórðarson, Ingólfur Birnir Þórarinsson, Kristján Bjarki Gautason, Víkingur Björnsson og síðast en ekki síst Þorsteinn Jónsson. Öll fengu þau bókagjöf frá Sparisjóð Höfðhverfinga sem og rós frá skólanum. Þá fékk Anna Kristín bókagjöf frá Danska ráðuneytinu á Íslandi fyrir framúrskarandi árangur í dönsku og þá fékk hún einnig viðurkenningu frá skólanum fyrir framúrskarandi námsárangur.

Lokaatriði dagsins var svo þegar Ásta kallaði alla nemendur og starfsfólk skólans upp á svið og saman sungum við lagið Vel er mætt undir stjórn Bjargar Sigurbjörnsdóttur. Þegar nemendur og kennarar höfðu sungið fyrir foreldra tóku allir lagið saman og tóku foreldrar vel undir.