Verum á varðbergi

Líkt og þið hafið eflaust heyrt um að þá er talsverð útbreiðsla Covid-19 smita á Akureyri og nágrenni um þessar mundir. Smitin eru fyrst og fremst á meðal nemenda í grunnskólum og hafa teygt sig inn í flesta skóla á Akureyri og fleiri skóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Búið er að stöðva íþróttaæfingar og tómstundir á meðan reynt er að ná utan um stöðuna auk þess sem einhverjir skólar hafa þurft að takmarka starfsemi sína eða loka tímabundið vegna smita.

Mig langar að biðla til ykkar allra að vera sérlega vel á varðbergi næstu daga og huga að því að takmarka samgang þar sem kostur er. Þá vil ég biðja ykkur um að hafa börn heima ef þau sýna minnstu einkenni veikinda, á meðan staðan er eins og hún er, og fara undantekningalaust í skimun ef minnstu einkenni gera vart við sig.

Grenivíkurskóli verður opinn og starfsemi með hefðbundnu sniði á meðan kostur er, en við munum þó reyna eftir fremsta megni að tryggja persónulegar smitvarnir og brýna slíkt hið sama fyrir nemendum.