Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Innanhússhluti Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk fór fram í Grenivíkurskóla í gær, mánudaginn 1. mars. Þar lásu nemendur í 7. bekk valda texta, sögur og ljóð, fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans.

Nemendur stóðu sig með mikilli prýði og það er ávallt gaman að sjá afrakstur æfinga vetrarins, en nemendur hafa undirbúið sig frá því á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember sl. Dómnefnd, sem að þessu sinni var skipuð þeim Ingu Maríu Sigurbjörnsdóttur, Ragnheiði Harðardóttur og Ástu Flosadóttur, fékk það erfiða verkefni að velja fulltrúa skólans sem taka þátt í lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fer í Kvosinni í MA þriðjudaginn 9. mars nk.

Dómnefndin valdi þau Olgeir Mána Bjarnason og Sigurlaugu Birnu Sigurðardóttur og munu þau því spreyta sig fyrir hönd skólans á lokakeppninni, en þangað koma einnig fulltrúar frá Hrafnagilsskóla, Þelamerkurskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Fjallabyggðar.

Við óskum öllum þátttakendum til hamingju með glæsta frammistöðu og þau Olgeir og Sigurlaug verða flottir fulltrúar skólans á lokahátíðinni.