Í dag kom enginn annar en forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson í heimsókn í Grenivíkurskóla. Það kom þannig til að fyrir um tveimur vikum síðan hélt nemendaráð skólans Guðna Th. dag til heiðurs forsetanum. Þá komu allir nemendur og allt starfólk skólans í skólann í litríkum sokkum og með buff á höfðinu og kom það að sjálfsögðu í fréttunum. Það kvöld fékk Guðni sms frá mömmu sinni sem spurði hann hvort hann hefði séð fréttirnar og svaraði hann nei. Þá fékk hann önnur skilaboð sem sögðu honum að horfa á fréttirnar á ruv.is sem hann og gerði og sagðist hann hafa tárast af hlátri og gleði.
Ásta skólastjóri tók á móti forsetanum ásamt þremur nemendum úr nemendaráðinu. Það voru Anna Kristín, Björn Rúnar og Jón Þorri. Þau tóku hring og sýndu Guðna skólann. Eftir það var hringt á sal og komu þá allir nemendur fram á svæðið okkar fyrir framan bókasafnið. Þar spiluðu og sungu nemendur í 1.-5. bekk fyrir Guðna og færðu honum svo gjafir. Þau færðu honum tösku sem þau hönnuðu og saumuðu sjálf í anda Grænfánaverkefnisins. Þar að auki fékk hann bækurnar Brot úr Byggðarsögu eftir Björn Ingólfsson og Fjöllin í Grýtubakkahreppi eftir Hermann Gunnar Jónsson sem og slalla af besta harðfisk í heimi (eins og þau orðuðu það sjálf), Eyjabita frá Darra, gjafakörfu frá Pharmarctica með vítamínum, varasalva og smyrslum. Hann fékk svo litríka sokka og síðast en ekki síst fékk hann brodd frá Stebba á Syðri Grund sem gat ekki verið minni maður en félagi hans Heimir í Darra. Hann fór því vel klyfjaður af góðum gjöfum frá okkur.
Guðni talaði síðan við krakkana og sagði þeim hvað Guðnadagurinn hefði komið honum á óvart og að þetta uppátæki hefði glatt hann mjög mikið. Það hafi síðan verið svo heppilegt að hann hafi átt erindi á Akureyri í dag og ákvað að koma til okkar í leiðinni. Hann gaf sér síðan mjög góðan tíma til að svara spurningum frá krökkunum og fékk hann spurningar um nánast allt milli himins og jarðar. En spurninga þemað má segja að hafi verið um breytingarnar sem fylgja því að fara frá því að vera kennari og verða svo forseti.
Krakkarnir fóru svo heim vel rúmlega fjögur eftir að Guðni hafði þakkað þeim kærlega fyrir sig en hann fékk þá að gæða sér á köku sem krakkarnir höfðu bakað fyrir hann og soðnu brauði að hætti Siggu Sverris.
Guðni þakkaði svo kærlega fyrir sig áður en hann fór og sagði að hér væru greinilega bara góð börn og vel upp alin.
610 Grenivík Sími á skrifstofu: 414-5413 Netfang: grenivikurskoli@grenivikurskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 414-5410 / grenivikurskoli@grenivikurskoli.is